Skip to main content

Vín og villtar meyjar

Í gegnum aldirnar hefur konum verið meinað að njóta víns á sama hátt og karlar. Strax í fornöld voru þær útilokaðar frá því að neyta víns á almannafæri. Þar hófst kynbundið tvöfalt siðgæði sem lifði áfram öldum saman og var fest í sessi af feðraveldishugsun: konur voru taldar eign eiginmanna sinna og því var talið að drykkja þeirra gæti orðið „eiganda“ sínum, fjölskyldu og samfélaginu til skammar. Vínneysla karla var tengd félagslífi, pólitík og vitsmunum – en konur sem drukku voru sagðar stjórnlausar, óáreiðanlegar og lauslátar.

Í Rómaveldi var konum beinlínis bannað að drekka og dauðarefsing vofði yfir þeim sem gerðu slíkt. Í Grikklandi voru symposion-drykkjuveislur einungis fyrir karla, þar sem konur máttu mæta sem þjónar eða vændiskonur. Og víða var lífseig hugmyndin um að kona sem drakk vín yrði að „villtri meyju“ – ógn við heiður ættarinnar og samfélagsins.

Fordómar gagnvart víndrykkju kvenna hélt áfram inn í miðaldir. Konur héldu þó áfram að brugga og selja vín og brennivín, einkum í lækningaskyni. En það var ekki hættulaust. Konur sem voru staðnar að því að eima eða brugga voru brennimerktar sem nornir og brenndar á báli ef áfengi fannst í fórum þeirra. Samhliða lifði hjátrú og hindurvitni: konur á blæðingum máttu ekki nálgast gerjun víns af ótta við að það myndi spillast, og nálægð þeirra var talin geta breytt bragði drykkjarins.

Á 18. og 19. öld, þegar vín og áfengi varð stærri hluti af daglegu lífi, fengu konur aðeins að drekka í lokuðum rýmum, í einrúmi, í hópi annarra kvenna eða í sérstökum „snugs“-herbergjum á enskum krám, fjarri augum karla. Þar fengu þær loks pláss til að neyta áfengis án þess að sæta dómum samfélagsins. Með tímanum tóku sumar konur sér meira rými, eins og Veuve Clicquot sem ruddi braut í kampavínsgerð og Lily Bollinger sem varð eitt helsta andlit kampavínsins á 20. öld.

Eftir seinni heimsstyrjöldina varð efnahagslegur uppgangur og því fylgdi ákveðin lífsnautnastefna. Drykkja, reykingar og kynlíf urðu hluti af frelsi og sjálfstæði – og konur tóku aukinn þátt. Enn frekari þróun í þessa átt var með 68 kynslóðinni og nýrra kvennahreyfinga og víndrykkja kvenna varð eitt af táknum þess að konur voru að losna úr gömlum fjötrum.

Nútímarannsóknir sýna að drykkja kvenna er enn oftar metin harðar en drykkja karla. Ölvun karla er oftar normaliseruð sem „félagsleg“ eða „karlmannleg“ en ölvun kvenna er frekar túlkuð sem óábyrg eða „ósæmileg“. Þetta speglar rótgróna hefð fyrir því að stýra lífi og hegðun kvenna.

Í dag eru konur stór hluti vínmenningarinnar – bæði sem víngerðarkonur, vínfræðingar og áhrifamestu neytendurnir á mörgum mörkuðum. Þrátt fyrir aldagamla fordóma, bann og hjátrú hafa konur aldrei hætt að drekka – í leyni, í lokuðum rýmum, í hópi annarra kvenna og síðan opinberlega á eigin forsendum. Saga víndrykkju kvenna sýnir að vín hefur aldrei bara verið drykkur – heldur spegill samfélagsins á stöðu kvenna og baráttu þeirra fyrir sjálfsákvörðunarrétti.

Skál fyrir vínkonum – Skál fyrir villtum meyjum!