Skip to main content

Kvenlegt handverk

Vín hefur verið miðpunktur helgisiða og menningar um allan heim frá fornu fari. Fundist hafa heimildir um bjór og víngerð í Kína, Georgíu, Armeníu, Tyrklandi frá 7000 árum fyrir krist. Burtséð frá því hver fæðingarstaður vínsins er þá hefur víngerð oftar en ekki verið lýst sem karlmannlegri iðju. Í bókinn “Girly Drinks: A World History of Women and Alcohol” eftir sagnfræðinginn Mallory O’Meare er farið yfir ósagða sögu kvenna í vínheiminum. Samkvæmt O’Meare hafa konur verið jaðarsettar í annálum sögunnar um áfengi en framlag þeirra er ótvírætt. Konur hafa alltaf verið þarna, ekki bara við hlið karlmanna heldur oft skrefi á undan þeim í vínframleiðslunni. Víngerð og bjórbruggun var frá fornu fari kvenlegt handverk enda hluti af matseld þar sem konur réðu ríkjum. Löngu á undan goðsögum um vínguðina Díónýsos og Bakkus voru til kvenkyns vínguðir sem gefur til kynna að hlutverk kvenna í víngerð hafi verið mikilvægt og virðingarvert. Fyrsta þekkta víngyðjan hét Gestin, sem þýðir vínviður, og var dýrkuð um 3000 árum fyrir krist. Ninkasi var súmersk bjórgyðja dýrkuð af bruggprestum og í Egyptalandi var víngyðjan Hathor sem ríkti yfir konum, ást og drykkju.

Uppfinningar og hugvit hafa mótað öll tímabil og konur koma þar sterkt við sögu. Á fjórðu öld e.kr. leit fyrsta eimingartækið ljós en það var hannað af efnafræðingi að nafni Maria Hebraea frá Egyptalandi. Hinum megin á hnettinum í Kína var Yi Di, eiginkona Yu hins mikla, talin hafa fundið upp fyrsta áfengið gert úr hrísgrjónum. Snemma á miðöldum var Hildegard frá Bingen fyrst til að skrifa vísindalega um rotvarnar eiginleika humla í bjór sem var stærsta nýjung í bjórtækni frá því bruggun var fundin upp.

Eftir því sem vínviðskipti fluttust út í Miðjarðarhafið og vín varð efnahagslega mikilvægt komu karlmenn inn í víngerðina. Í anda feðraveldisins varð mikilvægara fyrir karla að stjórna lögsögu yfir arfleifð og auði og setja nafn sitt á framleiðsluna. Reglum fjölgaði sem og skilgreiningar á því hver gæti búið til, verslað og drukkið vín. Konur komu þar ekki við sögu.

Hjátrú og hindurvitni

Í upphafi miðalda voru konur þó ennþá að brugga áfengi um alla Vestur-Evrópu. Þær skjóta upp kollinum í sögubókum áfengis, reka apótek og selja vín, bjór og brennivín til lækninga sem kallaðist „aqua vitae“ eða lífsins vatn. Það átti eftir að breytast í lok miðalda. Kústskaftið sem áður var einkenni ölhúsa varð tákn um nornagaldra. Konur flúðu í hópum frá eimingu og bruggun af ótta við að vera brennimerktar sem nornir og upp úr miðri 18. öld er konum meinað að taka þátt í áfengisframleiðslu. Þó franska byltingin sé lofuð fyrir að hafa áhrif á heiminn í átt að frjálsu jafnréttissamfélagi átti það eingöngu við um karla. Nýjar reglur litu dagsins ljós sem veitti körlum fullt vald yfir konum og svipti konur einstaklingsréttindum.

Með tímanum bættust við hjátrú og hindurvitni. Konur á blæðingum máttu ekki vera nálægt gerjun víns því fólk trúði því að það hefði áhrif á gerjunina og vínið breyttist í edik. Jafnframt töldu sumir að konur konur gætu spillt vínsmökkun með því að nota ilmvatn eða að hæfileikinn til að meta blæbrigði víns væri tengdur karlmennsku. Í víngerð voru gerð skörp skil á milli kynjanna og konur almennt taldar ófærar um að uppskera vínber og framleiða vín vegna líkamlegs atgervis. Iðnbyltingin hafði einnig áhrif þar sem það fór að heyra til undantekninga að bjór og vín væri bruggað í heimahúsum.

Sterkar vínkonur

Þrátt fyrir þessar takmarkanir tókst nokkrum viljasterkum konum að setja mark sitt á vínsöguna. Eina færa leið kvenna til að eiga og reka vínrækt var í gegnum arfleið. Þannig gátu dætur eignast vínræktun og ekkjur.
Ein þeirra var ekkjan Clicquot sem var í fararbroddi alþjóðavæðingu kampavínsmarkaðarins á 19. öld og eins fann hún upp „remuage sur pupitres“ aðferðina til að fjarlægja gruggið úr vínflöskum. Hún var fyrst til þess að framleiða rósafreyðivín með því að blanda saman kampavíni og rauðvíni. Í dag er hún almennt kölluð Veuve, eða „ekkjan“ Clicquot, og vísar til sambands hennar við mann sem gegndi engu hlutverki í afrekum hennar. Það voru margar aðrar kraftmiklar kampavínsekjur sem mörkuðu söguna og má þar nefna Lily Bollinger, sem rak Bollinger húsið í nokkra áratugi. Hún er þekkt fyrir fræga tilvitnun sína: „Ég drekk kampavín þegar ég er ánægð og þegar ég er leið. Stundum drekk ég það þegar ég er ein. Þegar ég hef félagsskap tel ég það skylt. Ég pæli í því ef ég er ekki svöng og drekk það þegar ég er svöng. Annars snerti ég það aldrei – nema ég sé þyrst.”

Erfðir eru ennþá mikilvægasta leiðin fyrir konur að brjótast inn í heim eignarhalds og víngerðar. Nokkrar sögufrægar fjölskyldur um allan heim eiga nú dætur við stjórnvölinn og þeim fer fjölgandi. Það þykir kannski ekki róttækt en í samhengi sögunnar eru þetta tímamóta framfarir. Það er ekki fyrr en á sjöunda áratugnum að konur sem komu ekki frá víngerðarfjölskyldum fóru að stunda vínferil með formlegri menntun. Þessar konur voru brautryðjendur sem fylgdu ástríðu sinni og áhuga til að þróa feril sinn í vínheiminum á eigin forsendum. Hægt og rólega fylgdu fleiri konur í kjölfarið en þær eru í miklum minnihluta þeirra sem eiga og reka víngerð.

Í dag hefur mörgum lagalegum hindrunum fyrir þátttöku kvenna í vínviðskiptum verið eytt, en hinar kerfisbundnar hindranir eru enn. Það er enn mikið ógert til að ná fram raunverulegu jafnrétti í vínheiminum en nauðsyn þess að þrýsta á það markmið hefur aldrei verið meiri, einmitt vegna þess að það markmið er í sjónmáli – kannski í fyrsta skipti í sögu heimsins!